föstudagur | 26. apríl | 2024

Þú ert ekki skráður inn

TF-BOR í loftinu
Flugfélagið Geirfugl ehf. var stofnað 27. maí árið 1997. Stofnendur voru 6 einka- og atvinnuflugmenn sem höfðu áhuga á því að stunda flug bæði á sem ódýrastann og lýðræðislegastann hátt. Ákveðið var að hlutir í félaginu yrðu 14 og keypt var fyrsta flugvélin, TF-BOR sem var tæplega 40 ára gamall Piper Tri-Pacer. Hluturinn í félaginu var seldur á 100.000 krónur. Í desember 1997 var ákveðið að fjölga hlutunum úr 14 í 15. Ljóst var að formið sem lagt var af stað með í upphafi gekk upp og fóru menn að spá í spilin varðandi stækkun á félaginu. Í apríl 1998 var samþykkt að fjölga hlutunum í 26 og keypt var vél númer 2, sem var af Robin gerð og hét TF-ROB. Fljótlega var félögum fjölgað eina ferðina enn í 30 manns. Í mars 1999 keypti félagið fyrstu Socata vélina sína, TF-BRO og var félögum þá fjölgað í 45. Næsta stækkun átti sér svo stað þegar TF-TBX var keypt og kom hún til landsins í lok janúar 2000. Í júní 2000 varð félagið fyrir því óhappi að TF-ROB eyðilagðist í flugtaki á Reykjavíkurflugvelli. Sem betur fór sluppu 2 Geirfuglar með skrámur í því slysi. Þar með átti félagið einungis 3 flugvélar. Í árslok 2000 var keypt TF-ICE sem var fyrsta Cessna Geirfugls og var hún tekin rækilega í gegn og var í toppstandi á eftir. Um vorið 2001 kom sú róttæka hugmynd að fjárfesta í nýlegri flugvél og varð það úr á endanum að keypt var 3 ára gömul Socata TB-200 og fékk hún einkennisstafina TF-MAX. Vorið 2003 var síðan TF-BRO settur upp í 3 ára gamla Socata TB-10 sem fékk einkennisstafina TF-LMB. Síðar eða árið 2006 bættist við TF-ISE, þannig að félagið er með 2 Skyhawka. 2007 eyðilagðist TF-OND og voru keyptar 2 nýjar vélar í stað hennar og TF-ICE, sem eru af gerðinni Diamond DA-20 Eclipse árgerð 2004 og 2007. Stærsta fjárfesting félagsins varð þegar félagið keypti Svalt Loft ehf. sem á Fluggarða 25 í Reykjavík, en við það eignaðist félagið 500 fm flugskýli í Fluggörðum, þar er öll aðstaða félagsins og 5 vélar geymdar. TF-MAX að undirbúa flugtakNýjustu vélar Geirfugls, Diamond Eclipse DA-20 C1


Í dag (29.08.08) er fjöldi hluthafa 173 og er hlutur hvers metinn á um 390.000 kr. Til að tryggja að allir hafi jafnan aðgang að flugvélakosti félagsins má hver hluthafi aðeins fljúga 60 tíma á ári, reyndar er hluthöfum frjálst að fljúga meira en það, en þá hækkar tímaverð umtalsvert. Þetta fyrirkomulag hefur gengið vonum framar. Hluthafar hafa nokkurn vegin alltaf getað gengið að flugvélunum þegar þeim hefur dottið í hug að fara að fljúga.


Varðeldur á flugmóti Geirfugla, Hellu 2001
Félagið vill stuðla að eflingu einkaflugs á Íslandi. Það er í lögum félagsins að flugvélar þess skuli taka þátt í sem flestum flugkomum og sýningum. Sérstaklega er tekið fram í lögum félagsins að vélar þess skuli staðsettar í Múlakoti um verslunarmannahelgar.
Framtíðarsýn félagsins er einföld. Hún er sú að félagið eignist fleiri flugvélar svo félagar þess geti haft aðgang að sem fjölbreyttustum og skemmtilegustum flugflota fyrir sem lægst verð.






Vefsmiðir:
(c) 2001-2002 Snillingarnir fjórir