Flugklúbburinn Þytur var stofnaður 3.júní 1987 á 50 ára afmæli samfellds atvinnuflugs á Íslandi. Stofnfundur var haldinn á heimili Ottós Tynes, sem varð fyrsti formaðurinn, en stofnfélagar voru 15 talsins. Félagar eru nú 83 flugmenn, atvinnu- og einkaflugmenn.

Félagstarf hefur verið byggt upp jafnt og þétt s.l. 21 ár og á klúbburinn nú 6 flugvélar, 3 flugskýli og einn fornbíl. Fyrsta flugvélin sem klúbburinn eignaðist var Piper J2C Cub árgerð 1946 og er hún því jafngömul F.Í.A. Flugvélin hafði verið flutt inn af þeim félögum Ágústi Karlssyni og Birni Jenssyni og voru þeir byrjaðir að gera hana upp þegar Þytur keypti hana. Flugvélin fór sitt fyrsta flug í eigu Þyts 28.ágúst 1987, skráð sem TF-KAO og voru flugmenn þeir Gunnlaugur P. Helgason og Ottó Tynes.

Sótt var um byggingaleyfi fyrir flugskýli í Reykjavík 28.desember 1987.

Sumarið 1989 gengu Þytsfélagar í flugklúbb Mosfellsbæjar og hafa síðan margir félagar Þyts einnig verið meðlimir í F.K.M. Þann 3.nóvember sama ár var haldin vígsluhátíð á Tungubökkum í Mosfellsbæ og fyrsta flugskýli Þyts tekið í notkun, en það heitir Sumarhús.

Snemma vors 1990 voru fest kaup á Cessnu 180 í Seattle í Bandaríkjunum og hún flutt með Boeing 747 flugvél Cargolux til Luxemborgar, sett saman þar og síðan ferjuflogið til Íslands af þeim Ragnari Kvaran og Þórði Sigurjónssyni. Þessi flugvél er skráð TF-KAH.

Árið 1991 var klúbbnum breitt í hlutafélag og 17.maí sama ár var fyrsta skóflustungan tekin að nýju flugskýli Þyts í Reykjavík og síðar sama dag var gengið frá stofnun hlutafélags.

Þytur eignaðist tvær nýjar flugvélar vorið 1991, en það voru Piper Super Cub, TF-KAJ og Cessna 170, TF-KAF. Þær voru báðar keyptar í Bandaríkjunum og komu saman í gámi til Íslands.

Vorið 1992 var nýtt flugskýli Þyts í Reykjavík tekið í notkun og heitir það Vetrargarðurinn eftir samnefndu veitingahúsi sem stóð á svipuðum stað á árum áður. Í því skýli hafa höfuðstöðvar flugklúbbsins verið síðan, bæði viðgerðaraðstaða og funda- og kaffistofa.

Félögum í þyt hefur fjölgað jafnt og þétt, í árslok 1992 voru þeir 27 og haustið 2008 voru þeir orðnir 83.

Árið 1999 eignaðist Þytur hina sögufrægu flugvél Björns Pálssonar TF-HIS sem Björn notaði til sjúkraflugs í tvo áratugi. Flugvélin er af gerðinni Cessna 180, árgerð 1953. Nokkru síða eignaðist klúbburinn glæsilegan fornbíl, Buick árgerð 1948 og er hann notaður af félögum við hátíðleg tækifæri. Sjötta flugvél Þyts var svo keypt af Birni Guðmundssyni og fleirum um mitt sumar 1999 það var Cessna 150, árgerð 1973, TF-KAB. Hún var m.a. leigð út til kennsluflugs, en var seld til flugfélagsins Geirfugls í 28.júní 2004.

Snemma árs 2002 var svo þriðja flugskýli Þyts keypt af Þorkatli Guðnasyni og var viðgerðaraðstaðan flutt yfir í það skýli, sem er beint á móti Vetrargarðinum, í Fluggörðum.

Sjöunda flugvélin var keypt í júlí 2006 af flugfélaginu Frímanni en það er Stinson 108-2 Voyager, árgerð 1947, TF-KAR. Með henni gengu fyrri eigendur hennar 13 talsins í Þyt.

Haustið 2006 var kaffi- og fundaraðstaðan á efri hæðinni í Vetrargarðinum stækkuð til muna. Var gerð hilla yfir flugvélageymsluna að hluta til og skapaðist þar ágætis aðstaða fyrir félagsstarfsemina, þessi aðstaða heitir að sjálfsögðu “Hillan”. Vorið 2008 var farið í það að laga gólfið í Vetrargarðinum en það var orðið mjög illa farið eftir að hafa sigið niður og brotnað. Var borað fyrir undirstöðu súlum og steypt nýtt gólf og bætt við einu salerni og málaðir veggir og gólf. Í maí 2008 var aðalfundur og árshátíð félagsins haldinn í fyrsta sinn í Vetrargarðinum og tókst það sérstaklega vel. Er því félagsaðstaðan orðin eins og best verður á kosið.

Félagsstarf er gott, árlegir aðalfundir eru haldnir snemma á vorin og árshátíð að loknum aðalfundi. Sumarhátíð klúbbsins er haldinn síðustu helgina í júlí ár hvert austur á Haukadalsmelum á Rangárvöllum. Þá er farið með allar flugvélar klúbbsins þangað austur og skemmta menn sér við flug, útiveru, söng og dans helgarlangt. Á gamlársdag ár hvert er opið hús í Vetrargarðinum. Þar hittast félagar, spjalla saman og fljúga ef veður leyfir og njóta ásamt gestum sínum veitinga í boði Þyts. Allir flugáhugamenn eru velkomnir í Vetrargarðinn og alveg sérstaklega á gamlársdag. Flugvélar Þyts eru í góðu standi en allt viðhald þeirra annast flugvirkjar klúbbsins þeir Jón H. Júlíusson og Hörður Eiríksson.

Allar flugvélar Þyts bera nöfn, þrjár bera nöfn vinda: “Blær” – TF-KAF, “Gustur” – TF-KAH, “Gola” – TF-KAR, en hinar þrjár bera nöfn flugmanna og flugvirkja sem félagsmenn vilja sýna virðingu sína. Þær heita: “Gulli P.” (TF-KAO) eftir Gunnlaugi P. Helgasonar flugstjóra sem var einn af stofnendum Þyts, en er nú látinn. “Björn Pálsson” (TF-HIS) ber nafn fyrrum eiganda síns, en Björn Pálsson var landsþekktur flugmaður og frumkvöðull í björgunar- og sjúkraflugi. “Jón H. Júlíusson” (TF-KAJ) var skírð á Haukadalsmelum í júlí 2007 í höfuðið á öðrum flugvirkja félagsins. Áður hafði Cessna 150 flugvélin TF-KAB verið skírð “Bjössi Gamli” í höfuðið á Birni Guðmundssyni sem hafði átt flugvélina á undan Þyt. Hann var einkaflugmaður og flaug allt fram til 85 ára aldurs.

Í júlí og ágúst 2008 var flugvélin TF-FRK Cessna 172 sem er nefhjólsvél, fengin til reynslu til félagsins og á sama tíma 2009 var TF-UTA tekin á leigu. Þar sem allar flugvélar félagsins eru stélhjólsvélar, þótti ástæða til að kanna hug manna til nefhjólsvélar. Hefur það fengið jákvæðar undirtektir að hafa nefhjólsvél, hvað sem verður um kaupa á slíkum grip, en það mál er í athugun.

Hvað býður það upp á að vera í flugklúbbnum Þyt ? Í flugklúbbnum Þyt eru bæði atvinnuflugmenn og einkaflugmenn, fyrir atvinnuflugmenn sem fljúga tölvuvæddum þotum að atvinnu, er það afslappandi að fara um borð í litla einhreyfilsflugvél og þurfa að “fljúga” henni. Hægt er að skreppa í sumarbústað, spila golf eða bara fara í útilegu, menn greiða aðeins floginn tíma og því hægt að hafa flugvélina hjá sér um stundar sakir. Í Vetrargarðinum hittast menn yfir kaffibolla kl. 15:00 alla virka daga og þar miðla menn reynslusögum og læra hver af öðrum. Á það jafnt við atvinnuflugmenn sem einkaflugmenn.

Eiginkonur Þytsmanna hafa með sér félagsskap sem þær kalla Pilsaþyt. Þær hafa meðal annars styrkt munaðarlaus börn í Afríkuríkinu Ghana og fjármagnað þar hús sem heitir Íslandshús Pilsaþyts.

Fyrsti formaður Þyts var Ottó Tynes, en aðrir formenn hafa verið Páll Stefánsson, Eyþór Baldursson, Reidar Kolsöe, Tómas Dagur Helgason, Hallgrímur Jónsson, Þorsteinn Kristleifsson, Freysteinn Jónsson, Stefán Davíð Helgason og Jóhannes Bjarni Guðmundsson.